
Hitaeiningar í áfengi – þetta verða allir að vera meðvitaðir um
Það er gaman að gera sér dagamun og hitta góða vini, skella sér út á lífið og mála bæinn rauðan. En eitt skulum við hafa bak við eyrað, ekki að ég sé að mæla gegn því að fólk fái sér stöku sinnum í glas (einu sinni í mánuði, hámark), heldur að fólk, sem er að temja sér nýjan lífsstíl og læra á hitaeiningar, geti haft þessar staðreyndir á hreinu þegar skrá skal hitaeiningafjöldann niður.
Alkóhól hefur að geyma helling af óæskilegum hitaeiningum og blandaðir drykkir óhemjumagn af sykri.
Áfengi þurrkar upp líkamann, þess vegna erum við þyrst og þurr þegar við vöknum, ertandi áhrif áfengis hefur áhrif á fjölmörg líffæri, t.a.m maga og nýru og útskýrir það magaverki, niðurgang og annað huggulegt sem við kljáumst við daginn eftir fyllerí. Þurrkurinn sem líkaminn verður fyrir eftir drykkju útskýrir meðal annars höfuðverkinn og viðkvæmni okkar fyrir ljósi, hljóði eða bara hávaða.
Ein skotheld leið til að forðast þynnku er að sleppa því að drekka áfengi, en ef þú ert gríðarlega áhrifagjarn og laus við sjálfsstjórn og ákveður að demba þér í brennsann mæli ég með því að þú haldir þig við hvítvín, vodka eða gin en sleppir koníaki, sherrýi, viskýi og fleiri tegundum sem gætu innihaldið tréspíra og önnur alkóhól, þ.e.a.s ef þú vilt takmarka þynnkuna daginn eftir. Einnig mæli ég með að nota frekar sykurlausa gosdrykki í blönduna, helst sódavatn.
Jæja, þá er komið að uppáhaldinu okkar, ÞYNNKUFÓÐRINU.
Þynnkumatur er yfirleitt óhóflega saltaður, fitumikill og brasaður, vegna þess að við erum öll þurr og rugluð í kroppnum eftir brennivínið. Ónefndir staðir sem selja djúpsteikta kjúklingabita og ónefndir pizzustaðir verða oft fyrir valinu. Það er hægt að koma í veg fyrir þessa þörf. Að skella í sig einum Gatorade eða Powerade eftir fyllerí fyllir strax á salt-og vökvatapið og við vöknum ferskari. Einnig skal forðast að fá sér áfengi rétt áður en skriðið er í koju, bæði er það gjörsamlega ástæðulaust, heimskulegt og eykur þynnkuverkina til muna.
Fáum okkur skyr, banana eða próteinshake í þynnkuni, þrátt fyrir að líkaminn kalli á annað. Höfum sjálfsstjórn eftir stjórnleysið kvöldið áður. Þitt er valið.
Hér fyrir neðan er stuttur listi yfir hitaeiningar í ýmsum tegundum áfengis
Stór Bjór, ljós - 234 kkal
Stór Bjór, dökkur - 215 kkal
Hvítvínsglas, 175ml, sætt - 130 kkal
Hvítvínsglas, 175ml, þurrt - 116 kkal
Rauðvínsglas, 175ml - 119 kkal
Martini Extra Dry, 6cl - 58 kkal
Martini Rosso, 6cl - 76 kkal
Einfaldur Gin+Tonic - 124 kkal
Tvöfaldur Gin+Tonic - 176 kkal
Einfaldur Romm+Kók - 136 kkal
Einfaldur Romm+Diet Kók - 68 kkal
Tvöfaldur Romm+Kók - 191 kkal
Tvöfaldur Romm+Diet Kók - 136 kkal
Einfaldur Vodka+kók - 124 kkal
Einfaldur Vodka+Diet Kók - 56 kkal
Tvöfaldur Vodka+Kók - 182 kkal
Tvöfaldur Vodka+Diet Kók - 114 kkal
Bacardi Breezer (meðaltal) - 172 kkal í flösku 330 ml
Bacardi Breezer sykurlaus - 96 kkal
WKD áfengisgos (meðaltal) - 223 kkal í flösku 330 ml
Smirnoff ICE - 176 kkal
Cider, sætur 500 ml - 239 kkal
Einfaldur Southern Comfort+Sprite - 73 kkal
Tvöfaldur Southern Comfort+Sprite - 121 kkal
Einfaldur Whiskey+Kók - 129 kkal
Tvöfaldur Whiskey+Kók - 194 kkal
Göngum heim í stað þess að taka leigubíl.
GÓÐA SKEMMTUN
